Prédikun 2012-03-04

Prédikun 4. mars 2012

í Hvítasunnukirkjunni Lifandi Vatni á Höfn.

Snorri í Betel

Um daginn logaði þjóðfélagið af reiði yfir "hatursáróðri” Snorra í Betel gegn samkynhneigðum. Ég fylgdist með umræðunum og ég verð að segja, það var ótrúlegt að sjá hversu mikið hatur var að finna í þessum umræðum. Ekki frá Snorra, heldur hinum og þessum sem tjáðu sig um málið.

Ég skal lesa fyrir ykkur hatursáróðurinn frá Snorra sem allt snerist um: "Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg."

Hins vega ætla ég ekki að hafa eftir það sem aðrir skrifa um Snorra, þegar maður las hvað fólk var að tjá sig á blogginu og á facebook og þess háttar. Að hann væri fæðingarhálviti var eitt að því vægasta sem maður sá. Allir virtust sammála því að Snorri væri ótrúlega vondur og hættulegur maður. Ég spyr, getur nokkur sá sem trúir að Biblían sé sönn, sé innblásið orð Guðs, skilið hana öðruvísi. Mér finnst það sem Snorri er að skrifa þarna ekki vera hatursáróður, heldur einmitt skrifað af nauðsyn í kærleika. Sumir segja kannski, oft má satt kyrrt liggja. Ég er ekki á því. Ef þeir sem þekkja orð Guðs þegja þegar fólki er talið trú um að synd sé ekki lengur synd af því að mannleg stjórnvöld hafi ákveðið það, þá veit ég ekki hvar ábyrgðin liggur þegar endirinn kemur. Ég ætla alla vega ekki að taka þátt í að telja ungu fólki trú um að samkynhneigð sé blessuð af Guði.

Ég ákvað að skrifa innlegg inná bloggsíðu Snorra og það hljómaði svona: "Sæll Snorri, Vá þetta er aldeilis eldfimt efni. Óskiljanlegt hvað setningin: "Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg." hefur vakið ótrúlega mikil og ruddaleg viðbrögð. Þar sem ekki er hægt að tjá sig hér á blogginu nema menn séu skráðir þá hafa menn farið offörum á öðrum vefmiðlum eins og t.d. Facebook, og á útvarpsstöðvum, og alls staðar heyrir maður lýsingar á þér sem hálfvita, mannhatara, og mjög margt því verra. Þetta er algjörlega komið upp í andhverfu sína. Það er ekkert annað en kærleikur í setningunni sem þú skrifaðir, en viðbrögðin þarna úti eru svo full af hatri, og ofsóknum að mér finnst frekar að við ættum að hneykslast á Snorrahatri, frekar en nokkru öðru. Ekki gefast upp á þessari þjóð, þó maður sjái best á stundum sem nú hversu gegnsýrð þjóðin er af illsku. En ég er viss um að það er fullt af fólki þarna úti sem ekki tjáir sig, en stendur með þér, hvort sem þau eru í Hvítasunnukirkjunni eða ekki. Og ég ætla rétt að vona að allir í Hvítasunnuhreyfingunni standi með þér og treysti þér. Ég geri það 100%. Kær kveðja, Einar Öræfingur"

Það er greinilegt að það mun koma sá tími að við sem teljum okkur Hvítasunnufólk verðum að vera tilbúin að standa með trúarjátningu okkar. Kenningar Hvítasunnukirkjunnar Lifandi Vatns eru meðal annars: 12.1.Við trúum að Biblían, Heilög ritning, sé innblásin, óskeikul, óvéfengjanleg og myndugt orð Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16). Sá tími virðist vera kominn að við höfum ekki lengur rétt til að trúa Biblíunni opinberlega. Stjórnvöld virðast vera að stefna í þá átt. Þingið virðist stefna í þá átt. T.d. var eini þingmaðurinn sem tók upp hanskann fyrir Snorra Árni Johnsen og meðan hann var að tala óvirtu margir þingmenn hann með því að ganga úr salnum. Enda kannski ekki furða þegar forsætisráðherra landsins sem væntanlega situr í þingsalnum er samkynhneigð.

Tjaldbúðar Bæn

En ég ætlaði nú að tala um annað hér í dag, efni úr bókinni The Remnant eftir Larry Stockstill. Það er mjög góð kennsla um bæn og föstu í bókinni.

Margir hafa heyrt talað um pastorinn David Yonggi Cho í suður Kóreu sem leiðir stærstu hvítasunnukirkju heims með 750 þúsund meðlimi. Hann hefur leitt kristið starf í fimmtíu ár og er mjög auðmjúkur maður. Eitt af því sem hann kennir um bæn er það sem við getum kallað Tjaldbúðarbænin. Hann notar þessa bæn á hverjum degi, biður í 3 klst á dag eftir þessu módeli. Ég hef nú ekki verið sterkasti bænahermaður landsins, en ég held að þetta geti verið góð leið til að hjálpa manni að dvelja í bæninni og nálgast Guð meira. Örugglega gott í soaking líka.

Hugsum okkur að við komum inn í tjaldbúðina sem Móse reisti í eyðimörkinni. Við skulum sjá fyrir okkur litskrúðuga tjaldveggina rísa upp af hvítum sandinum. Tjalddúkurinn er úr tvinnaðri baðmull, og með lykkjum úr bláum og rauðum purpura, og skarlati og á dúknum eru myndir af kerúbum ofnar með listvefnaði. Timburverkið í tjaldbúðinni er af akasíu viði og það er tjaldað yfir búðina með dúkum úr geitahári. Við göngum inn í tjaldbúðina úr austri.

Bronsaltarið

Fyrst þegar við komum inn í forgarðinn þá sjáum við fyrir framan okkur brons altari þar sem hægt er að brenna stærri dýr í brennifórn. Það lítur út eins og stórt útigrill. Þetta altari táknar krossdauða Krists. Guð vill að þegar við byrjum að nálgast Hann í bæn þá minnumst við og erum þakklát fyrir hvað Sonur hans gerði fyrir okkur á krossinum. Við þökkum Drottni fyrir hvert sár sem hann tók á sig fyrir okkur, og fyrir því að Hann bjargaði okkur frá eilífum dauða vegna synda okkar.

Eirker til Þvotta

Þegar við göngum fram hjá bronsaltarinu komum við að Eirkeri til þvotta. Það lítur út eins og fuglabað en það er með spegli í botninum þannig að sá sem þvær sér í því sér spegilmynd sína í því. Á hverjum degi í bæninni þá skulum við ganga að þessu eirkeri og líta raunsæum augum á spegilmynd okkar í helgri tjaldbúð Guðs. Við skulum spegla okkur í ljósi Orðs Guðs, og vera hreinskilin og leyfa Guði að benda okkur á ef eitthvað er óhreint í lífi okkar. Jonggi Cho notar þetta tækifæri oft til að fara yfir boðorðin tíu og kanna hvort hann sé ekki í sátt við hvert og eitt boðorð. Það að þvo sér í bæninni í eiraltarinu gerir það að verkum að við getum hreinsað líkama okkar, sál og anda, og ekki skilið neitt óhreint svæði fyrir óvininn að ráða yfir. Við hreinsum okkur með Lifandi Vatni Jesú Krists.

Sjöarma Ljósastikan

Þegar við göngum inn í Hið Heilaga þá sjáum við á vinstri hönd við suðurvegginn Sjöarma ljósastikuna. Þetta er eina ljósið sem lýsir inni í því Heilaga. Þetta er táknmynd upp á Heilagan Anda, eða hina sjö anda Guðs sem minnst er á í Opinberunarbókinni 4:5. Í Jesaja 11:2 lærum við um 6 hliðar Heilags Anda sem Jesú gaf okkur. Andi Vísdóms, Andi Skilnings, Andi Ráðspeki, Andi Kraftar, Andi Þekkingar og Andi Ótta Drottins. Sjöunda atriðið gæti verið Andi Drottins, sem væri mið armurinn í ljósastikunni. Á hverjum degi skulum við biðja Heilagan Anda að koma með allar þessar gjafir til okkar og við skulum treysta á Heilagan Anda að vera þátttakandi í bænum okkar til Guðs.

Borð fyrir Skoðunarbrauðin

Við norðurvegginn í Hinu Heilaga stendur Borðið fyrir Skoðunarbrauðin. Þegar þú kemur að því snýrð þér að því þá sérðu væntanlega skuggamynd þína falla yfir þetta borð því þú ert með sjöarma ljósastikunu í bakið. Á borðinu sem er úr akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og ein og hálf á hæð, eru 12 brauð sem tákna tólf ættkvíslir Ísraels. Páll kom með þessa myndlíkingu inn í Nýja Testamenntið í Korintubréfi 10:17. Af því að brauðið er eitt, erum við hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina Brauði. 

Þar sem við stöndum fyrir framan Borð Skoðunarbrauðanna skulum við skoða hverning samfélag okkar er við systkini okkar í Líkama Krists. Er skuggi okkar sem fellur á aðra kristna, skuggi myrkurs, og niðurrifs, eða er skuggi okkar líkt og skuggi Péturs og Páls þegar þeir gengu um stræti Jerúsalem, skuggi lækningar og lífs?

Reykelsisaltarið

Nú skulum við ganga að Fortjaldinu sem lokar af hið allra helgasta. Við Fortjaldið stendur Reykelsisaltarið. Þegar þarna er komið í bæninni er rétti tíminn til að lofa Guð. Láta lofgjörð okkar stíga upp til hans með reykelsisilminum. Op 8:3-4.

Hér er góður staður að staldra við og hugsa um hver Guð er fyrir okkur. Katrín er nýlega búin að vera að kenna um nöfn Guðs. Við skulum rifja þau aðeins upp, og nota til þess sálm 23.

Jehovah-Rohi; Drottinn er hirðir; Drottinn er minn Hirðir.

Jehovah-Jireh: Drottinn sér fyrir mér; mig mun ekkert bresta

Jehovah-Shalom: Drottinn er Friður; á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Jehovah-Rapha: Drottinn læknar; hann hressir sál mína

Jehovah-Tsidkenu, Drottinn er Réttlæti: leiðir mig um rétta vegu

Jehovah-Shammah: Drottin er nálægur: ...um dimman dal..því þú er hjá mér

Jehovah-Nissi: Drottinn Verndar: þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum.

Örkin 

Nú skulum við ganga inn fyrir fortjaldið og koma inn í Hið Allra Helgasta. Þangað mátti bara æðsti presturinn ganga inn einu sinni á ári til að friðþægja fyrir lýðinn, og meira að segja var það svo að ef hann var óverðugur þá dó hann við að koma þarna inn. Hinir prestarnir bundu kaðal um fótinn á honum og á honum héngu bjöllur svo að þeir heyrðu ef hann datt dauður niður og gátu þá dregið líkið af honum út með kaðli. Reyndar þekki ég ekki dæmi um þetta annað en tvo syni Arons í upphafi tjaldbúðarinnar. Þeir óvirtu Guð í tjaldbúðinni og duttu dauðir niður.

En við skulum muna að Tjaldbúðin er bara myndlíking og undirbúningur fyrir komu Messíasar, Jesú frá Nasaret. Það sem hann gerði fyrir okkur á Golgata, varð til þess að við getum hvert og eitt okkar hreinsast af fyrri syndum okkar og átt náið persónulegt samband við Guð Föður okkar, Skapara himins og jarðar. Hvert og eitt okkar erum við sem æðsti presturinn, við erum konunglegt prestafélag heilög þjóð. Við skulum í bæninni ganga djörf inn að Hásæti Guðs, og treysta því að frelsisverk Jesú fyrir okkur er nóg. Jafnvel þó við höfum brotið lög Guðs, ef við iðrumst af einlægni og neglum syndir okkar á krossinn, þá eigum við beinan aðgang að voldugustu persónu alheimsins, Guði Almáttugum.

Þarna er góður staður til að biðja fyrir fjölskyldu okkar, fyrir bæjarfélagi okkar, fyrir landi okkar og þjóð. Fyrir áætlun Guðs með heiminn allann.

Í dag er fyrsti sunnudagur mánaðarins. Við ákváðum fyrr í vetur að við skildum hafa Brauðsbrotningu í upphafi mánaðar. Við skulum muna að hver einasti dagur er tækifæri til að byrja nýtt líf, gefa Drottni gömlu vandamálin og særindin, og stíga inn í syndlaust líf. Brauðsbrotning er leið sem postularnir og Jesú sjálfur kenndu okkur til að minnast þess á táknrænan hátt að við erum hluti af líkama Krists hér á jörð. Við erum eins og við lásum áðan við Borð Skoðunarbrauðanna Af því að brauðið er eitt, erum við hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina Brauði.

Þeir sem tilheyra þessari kirkju eru hvattir til að koma að borðinu hér á eftir og taka þátt í brauðsbrotningu. En munið að í dag er tækifæri til að gera upp óuppgerð mál. Ef einhver hefur gert á þinn hlut og þú berð ófyrirgefningu í hjarta, þá skaltu gera það upp áður en þú kemur. Þú getur fyrirgefið hér og nú, jafnvel þó að hinn aðilinn sé ennþá í stríði við þig. Þú getur kosið hér og nú að henda af þér hlekkjum særinda og ófyrirgefningar. Ef þú gefur Jesú og Heilögum Anda leyfi til að taka málin í sínar hendur er ótrúlegt hvað getur gerst í ósleysanlegum málum.

Ef þú átt ekki persónulegt samband við Drottinn í dag, ef þú ert ekki viss um að þú megir ganga inn í hið allra heilagasta til hans þá ætla ég að bjóða upp á fyrirbæn hér áður en við göngum inn í brauðsbrotningu. Við skulum bara fá Katrínu til að setja ljúfa lofgjörðartónlist á, og þið sem sitjið skuluð vera í bæn, og það er tilvalið fyrir ykkur að nota tækifærið og ganga inn í Tjaldbúð Drottins í Eyðimörkinni. Skoðið ykkur um í þessari yndislega fallegu tjaldbúð Guðs meðan þið eruð í bæninni. Guð Blessi ykkur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband